Bera

þriðjudagur 31. maí, 2005

VCTA

Filed under: blabla — Bera @ 21:50

Fyrir rúmri viku endaði “Vi cykler til arbejde” (VCTA) átakið, sem hafði þá staðið í 4 vikur. Liðið mitt, fiberrytterne, stóð sig með mikilli prýði og að meðaltali mun betur en ég. Hjólið mitt hafði 7 gíra, þar af 2 mismunandi. Af því mig langaði að hafa fleiri valmöguleika keypti ég mér nýtt hjól, júbíí! (Og Skúli, þú hugsar nátturulega, í anda einfalds lífs, afhverju lét hún ekki gera við gamla hjólið. En ég var löngu búin að reyna það og það var bara næstum ekki hægt). Ég fór í langan hjólatúr að prufa nýja hjólið; meðfram ströndinni, í Dyrehaven og allt mögulegt. Frábært að hjóla norður fyrir bæinn skal ég segja ykkur. Þegar ég var næstum komin heim, stökk einhver fullorðinn óviti út á hjólastiginn. Í staðinn fyrir að hjóla á hann greip ég í bremsuna á nýja hjólinu. Bremsan reyndist í fínu lagi, og mun effektífari en bremsan á gamla hjólinu, ég flaug upp í loftið, en datt þó aftur niður eins og lög gera ráð fyrir, og sá hluti var frekar óþægilegur. Eftir að hafa eitt kvöldinu á slysó var niðurstaðan að ekkert hefði brotnað en hægri handleggur illa snúin og tognaður.
Sumir vinnufélagar mínir, reglulega skilningsríkt og sniðugt fólk, hafa stungið upp á því að ég hefði átt að kaupa mér hjól með hjálpardekkjum. En það hefði ekki hjálpað mér í þessu tilfelli því ég datt um “hinn ásinn”, þ.e. flaug yfir stýrið.
Því miður gat ég ekki hjólað það sem eftir var VCTA átaksins. Það var fyrst í þessari viku að ég byrjaði að hjóla afur, og núna er bara komið þetta hundleiðinlega veður, rok og rigning.
En því til sönnunar að það var komið sól og sumar er hér mynd frá síðustu helgi:

sko -það var gott veður!!!

föstudagur 27. maí, 2005

Föstudagur aftur

Filed under: blabla — Bera @ 18:45

Í vinnunni minni, sem liggur á risastóru iðnaðarsvæði með ferköntuðum gráum byggingum og bílastæðum er eitt svakalegt stílbrot. Úr mötuneytinu er gengt út á verönd með útsýni yfir grasflöt, blóm og tré. Meira segja eitt lítið listaverk. Ægilega huggó. Þar borðuðum ég og kollegarnir í dag, því það er alveg frábært veður. Og svo er náttúrulega algjör föstudagur og Gunni er að baka pizzurnar. Allir strákarnir heima og Fredrik og Simon vinir Kára eru líka í mat. Og við Gunni borðum náttúrulega á svölunum.

Bara það besta, sól og sumar og öllum líður vel.

föstudagur 20. maí, 2005

Bera bloggari

Filed under: blabla — Bera @ 18:47

Núna er ég búin að vera bloggari í næstum viku, og það er mjög skemmtilegt. Ég er nú hluti af sérstökum flokki fólks, bloggaranna. Enn sem komið er skiptir það mig engu máli að ég hef svo sem ekki skrifað nema tvær línur. Ég veit að stóra systir mín hefur lesið þær, því hún hefur sent athugasemd. En það er líka alveg nóg í bili. Ég hef þó stungið upp á því við manninn minn að hann lesi bloggið mitt, sem hann á ábyggilega eftir að gera.

Í dag er föstudagur, sá dagur vikunnar sem hefðirnar eru hafðar í hávegi í fjölskyldunni. Þá borðum við pizzuna hans Gunna. Strákarnir sitja á dýnu inni í stofu og horfa á Disney-show. Gunni og ég borðum í rólegheitum inni í eldhúsi. Svona hefur þetta verið í, já ætli það sé ekki að verða 10 ár. Oft eru auka börn í mat og við erum að skapa trend hér i hverfinu, og fyrir þá sem ekki þekkja til staðhátta er þetta svaka smart hverfi.

Ívar, sem er mikið föstudagsbarn, er ekki heima í dag. Hann fór með Isak vini sínum í sumarbústað og verður fram á sunnudag. Ég vona að litla músin mín fái ekki heimþrá þegar hann hugsar til pizzunnar, en alla vega sakna ég hans smá, með tómatsósu kringum munninn.

mánudagur 16. maí, 2005

Ég blogga líka

Filed under: blabla — Bera @ 14:42

Eftir að hafa hringt svona fimm sinnum í Sigrúnu systur og setið við tölvuna í svona tvo tíma tókst mér að setja bloggið upp (held ég). Eða eiginlega var það nú bara Sigrún sem gerði það.

En hvað um það, Íslendingar blogga, og núna líka ég.

Powered by WordPress