Bera

sunnudagur 28. ágúst, 2005

Ágúst

Filed under: blabla — Bera @ 11:47

Það er alveg hreint ótrúlegt hvað eru margir foreldrafundir sem maður þarf að fara á til að fylgjast með lífi 3ja barna. Og flestir þeirra eru í ágúst. Maður þarf að leggja sig allan fram til að hafa tíma til að heyra útgáfu barnanna sjálfra á þessu daglega lífi. Ýmislegt hefur komið til, en alla vega hafa síðustu 3 vikurnar verið þeytingur og rótleysi.
En í dag er allt í rólegheitunum, hjá mér alla vega. Ég er ein heima með Agli, sem er sönglandi inn í herbergi að leika með Knex. Gunni er á einhverju sem þau kalla Godsejer møde, með kollegum. Snýst víst um vinnuna en það krefst greinilega dálítillar umhugsunar hvort maður fari keyrandi. Ívar er að leika við bekkjarfélaga. Kári er í Þýskalandi með U15 landsliðinu, svaka gaman. Og ég setti persónulegt met á miðvikudaginn, var komin í vinnuna klukkan 7 eftir að hafa keyrt hann til Høje Tåstrup.
Annað persónulegt met frá síðustu viku á Ívar, en hann hoppaði frá 5 metra stökkpallinum í sundi. Við fórum svo í sund í gær, í DGI byen þar sem er svaka fín dýfingalaug, skyldi hann nú þora þessu þegar við vorum með og skildum við þora að horfa á. Ívar stökk frá öllum pöllunum eins og óður. Gunni herti sig upp eftir að hafa séð Ívar stökkva nokkrum sinnum af 5 metra pallinum og fór með honum. Ég stökk bara af 1.5 m pallinum, og ég sem er svo köld, þori að fara í rússíbana þar sem maður snýst á hvolf og allt!

Og talandi um þau undur og stórmerki sem fjölskyldumeðlimir hafa upplifað í síðustu viku, ekki má gleyma að Kári fékk í fyrsta skipti einkunn í skólanum. Elsku drengurinn er nú ekki nema 14 ára, þannig að tillitssamir eins og danir eru þá hefur börnunum hingað til verið hlíft við þess háttar harðneskju. En hann fékk sem sagt einkunn fyrir stafsetningar- og málfræðiverkefni sem hann gerði í dönsku. Hann fékk 9 (af 13). Þau bekkjarfélagarnir voru fljót að raða öllum í einkunnarröð, Kári var í 2.-3ja sæti.
(frekar leiðinlegt að játa í þessu samhengi, en ég man víst ekki hvað eru mörg n í hinum mismunandi föllum af einkunn).

laugardagur 20. ágúst, 2005

Egill 8 ára

Filed under: blabla — Bera @ 22:25

Á fimmtudaginn átti Egill afmæli. Hann er nú svona frekar mikil svefnpurka en í á afmælisdaginn kom hann upp í rúm til okkar áður en ég var farin fram úr. Gunni fór með vöfluís í skólann fyrir bekkinn að ósk afmælisbarnsins. Við vorum svo öll komin heim um 2 leitið og þá opnaði hann pakkana, svo voru kökur og hamborgarar í kvöldmat. Frábær hugmynd þetta með afmælisdaga, að vera aðal númerið og fá að ráða öllu í einn dag. Í dag fór hann svo í kolonihaven til Júlíusar og gistir þar.

Í dag var ég með Kára í badmintonkeppni í Hillerød. Gekk bara vel fannst mér, hann að spila undanúrslit í mix double á morgun. Það virðist þó þurfa aðeins meira til til að hann sé alveg ánægður sjálfur. Gunni, Ívar og Emil eru búnir að vera að dútla sér í dag. Gunni hefur að eigin sögn lagt sig fram við að vera mjög latur, svo latur að hann nennti ekki að lesa greinina í Gymnasiskolen þar sem Einar Baldvin frændi segir að maður eigi að muna að vera stundum latur. (Þannig að Gunni hefur ekki gert annað í dag en að gera helgarinnkaup, pússa nokkra glugga, fara með Ívar og Emil í sund og búa til matinn, hugsið ykkur, hvílík leti!)

Nú erum við svo að fara horfa á undanúrslit í HM (badminton að sjálfsögðu), Peter Gade á móti Lin Dan, kom nu Gade. Á einhverri kínverskri stöð sem við náum af netinu, fín gæði og fín víraflækja sendir myndina svo í sjónvarðið okkar.

Egill 8 ára

PS/ velkomin heim mamma.

sunnudagur 14. ágúst, 2005

Skólarnir byrjaðir

Filed under: blabla — Bera @ 18:15

Nú eru strákarnir byrjaðir í skólanum. Mér er því ekki svo mikil vorkun lengur að fara svona agalega snemma á fætur.
Ívar er kominn í 4. bekk. Þar með er hann hættur á skóladagheimili og kominn í klúbb. Þetta virðist vera prýðis klúbbur, alla vega hægt að gera allt mögulegt; spila borðtennis, billjard, tölvuleiki, það er siglingaklúbbur og eflaust eitthvað fleira. Það er ansi mörg börn þarna (t.d. 5, eða kannski fleiri, bekkir í hans árgangi), sjáum til hvernig það leggst í Ívar minn. Það er líka búið að skipta út öllum kennurunum í bekknum hans, þannig að mörg ný nöfn og andlit að kynnast fyrir hann. Svo vona ég náttl að ég geti munað eitthvað af þeim líka.
Egill er enn með hana Stine, aldeilis fínn kennari. Agli finnst rooosalega gaman í skólanum á hverjum degi.
Kári byrjaði aðeins seinna, á miðvikudaginn. Það er komin íslensk stelpa í bekkinn hans og það finnst honum voða gaman. Ég held bara að þrátt fyrir alla þessa útlendinga í Danmörku sé þetta í fyrsta skipti sem hann hefur bekkjarfélaga sem hefur annað móðurmál en dönsku.

PS/ Myndir úr Englandsferðinni:
sjáið hér

föstudagur 5. ágúst, 2005

Föstudagur

Filed under: blabla — Bera @ 18:57

Jæja, ég verð að taka hlutverk mitt sem bloggara alvarlega, svo hér er ég aftur. Lífið hjá fjölskyldunni er nú ekki komið alveg í fastar skorður eftir sumarfríið. Eða bara alls ekki, nema hvað ég er byrjuð að vinna fyrir þetta lifandis löngu. Gunni er soldið byrjaður að undirbúa kennslu. Strákarnir eru ennþá í sumarfríi. Ívar og Egill eru eitthvað að leika sér saman, eins og þeir hafa gert hér um bil stanslaust í þessar 7 vikur síðan þeir fóru í frí. Þeir eru nú aldeilis lausir við allan æsing og Egill er ennþá á náttfötunum. Fyrir eftirtektarverða lesendur sem muna eitthvað úr síðasta blogginu mínu vil ég samt taka fram að hann hefur klætt sig nokkrum sinnum í millitíðinni.
Badmintonþjálfunin er byrjuð hjá Ívari og Kára. Kári er í æfingabúðum, það var hann líka í síðustu viku, og ef ég man rétt á hann líka að fara um næstu helgi.
Jæja, en sumir hlutir ganga sinn vanagang og pizzan er í ofninum. Mamma og pabbi eru í heimsókn hjá okkur en því miður nýtur nú mamma ekki góðs af pizzunni því hún er með magakveisu. En pabbi og Ari, sem átti leið um Kaumannahöfn á Evrópuferð sinni, eru alla vega með “í þessu dæmi” (já sko, ég ákvað þegar ég byrjaði að blogga að vera ekkert að afsaka málfarið, ekki af því ég blóti nú sérlega mikið, en orðaforðinn hefur eitthvað minnkað og slettur slæðast inn eftir 19 ár í útlöndum. En íslenskan hefur líka breyst, t.d. er allt mögulegt orðið að hinum og þessum “dæmum”, gæsalappir af því ég er soldið óörugg á að ég ráði við notkunina). Fortsat god fredag.

Powered by WordPress