Bera

föstudagur 25. nóvember, 2005

farið nú að drífa ykkur heim

Filed under: blabla — Bera @ 0:01

Egill og Ívar eru komnir í rúmið. Gunni er á aðalfundi í húsfélaginu ( svalirnar til umræðu) og Kári er í þjálfun. Ég er búin að lesa laufadrottningu í Kapalgátunni fyrir Ívar, kakan sem Egill á að taka með í skólann á morgun er komin í ofninn og mér er kalt á tánum. Það er hvasst og það blæs undir svalahurðirnar. Þurfum að gera eitthvað í því. Kári þjálfar 3 kvöld í viku (fyrir utan það sem hann þjálfar á daginn), og það hafa verið hinir ýmsu fundir og keppnir á dagskrá hjá okkur öll kvöld síðustu vikuna. En við gerum ráð fyrir að vera öll heima á sunnudaginn. Líka reyndar á laugardaginn, þá koma Susanne og co til okkar.
Um síðustu helgi var ég með Kára í keppni í Værløse. Hann byrjaði að spila kl 9 á laugardeginum og spilaði langt fram á kvöld, vorum ekki komin heim fyrr en að ganga miðnætti. Svo vorum við mætt klukkan 8:30 daginn eftir í undanúrslit. Honum gekk bara rosa vel fannst mér, en það er greinilegt að það er alltaf ferlega svekkjandi að tapa, líka þó maður sé kominn í úrslit. Svo brunuðum við í bæinn, hittum Gunna, Ívar og Egil, sem voru búinir að kaupa miða á nýju Harry Potter myndina, og henni mæli ég sko með!

miðvikudagur 16. nóvember, 2005

Filed under: blabla — Bera @ 18:03

Í dag eru kosningarnar og við Gunni búin að kjósa, bæði í borgarstjórn og í “region hovedstaden”. Það voru ca 300 nöfn á hvorum kjörseðli, og þeir voru næstum meters langir hvor. En sem betur fer vorum við búin að ákveða okkur og þurftum ekki að lesa þau öll. Þó ég kæmist að því inn í kjörklefanum að flokkar eins og “Mobilmast”, “Gratis Lykke” og “Lavere skatter og afgifter” væru í framboði breytti það engu.
(altsvo í gær, náði aldrei svo langt að birta pistilinn).

mánudagur 7. nóvember, 2005

Kosningaréttur

Filed under: blabla — Bera @ 21:12

Í dag kom með póstinum kosningaseðillinn, sönnun þess að ég hef kosningarétt í sveitastjórnarkosningunum í næstu viku. Ég hef nú eiginlega ekki full mannréttindi vegna þess að ég hef ekki kosningarétt í þingkosningum, sem eru nú eiginlega dáltið meira spennandi en þessar borgarstjórnarkosningar. En í þetta skipti er nú smá gaman að þessu. Hér í Kaupmannahöfn kemur nýr borgarstjóri (sem hefur bara gerst einu sinni áður síðan við fluttum hingað, og þá var sá nýji bara valinn af þeim gamla, já reyndar fyrir utan afleysingamanninn sem hefur verið síðustu mánuði). Prófkjör og ég veit ekki hvað, og svo hafa meira segja einhverjir aðrir flokkar en kratar haldið sínum kandidötum á lofti, eins og það sé nú eitthvað aktúelt.
Kratar hafa stjórnað Kaupmannahöfn í 100 ár, þ.a. það væri nú kannski tilvalið að leyfa öðrum að komast að. En það er nú ekki hægt að kalla þetta neina alvarlega tilraun hjá minnihlutanum, þ.a. ætli ég kjósi ekki bara Ritt (R!tt, ingen slinger i valsen). Þó ég myndi aldrei kjósa kratana í hinum kosningunum sem mig langar svo að taka þátt í, en má ekki. Er ekki líka alveg til fyrirmyndar að Ritt, 64 ára daman, langi svo að byrja nýjan karríer núna, meðan meðal dani væri búin að hlakka til að fara á eftirlaun í 10 ár á þessum aldri, og líklegast búin að gera alvöru úr því. (Ívar spurði okkur foreldrana í gær í hvaða eftirlaunasjóði við værum, auglsjóst hvar drengurinn er alinn upp).
Fyrir svona 10 árum gerði ég tvær tilraunir til að viðhalda íslenskum kosningarétti mínum, en þær misheppnuðust báðar (ef frá er talið eitt ár sem ég hafði kosningrétt, en það voru bara engar kosningar). Ég hef nú heldur ekki almennilega sett mig inn í málin eftir að alþýðubandalagið hætti að bjóða fram, þ.a. það væri nú kannski hálfgerð misnotkun á réttinum. (nei annars, ég hef heilmikið vit á þessu, verð nú að geta tekið þátt í umræðunum þegar við erum á Íslandi. Hjálpar að það virðist alltaf bara vera eitt mál í gangi í einu)

Powered by WordPress