Bera

laugardagur 15. desember, 2007

jólaundirbúningur

Filed under: blabla — Bera @ 19:52

Við erum frekar mikil jólabörn hér á heimilinu, finnst rosa gaman að skreyta, setja jólasjós á svalirnar, búa til nammi og svona. Í ár hlakkaði ég sérstaklega til að geta sett ljós á nýju svalirnar. Vorum búin að fá innstungu út á svalirnar og allt.
Við byrjum alltaf á þessu 1. des. Í ár byrjaði desember bara eitthvað svo ójólalega, rigning alla daga og rok, ég var á slysó og kom heim með hækjur, Ívar var veikur, Egill fékk gubbupest, Ívar fékk gubbupest og… ekki allt upptalið en nóg komið. Eftir nokkra töf tókst okkur að komast í sving, skreytingarnar komnar upp, allt okkar listræna jólanammi tilbúið (og ekki alveg búið), jólaljósin komin á svalirnar og jólalögin á fóninn.
Nú er verulega að styttast í frí. Strákarner eru þvílíkt spenntir fyrir Íslandsferðinni, hitta alla, alltaf allt svo rólegt og þægilegt, alveg vissir um að það verði hægt að renna í brekkunni á hverjum degi, og svo náttúrulega jólin. Í fyrsta skipti hafa Egill og Ívar minnst á það að fyrra bragði hverju þeir vilja klæðast á jólunum. Og þeir vilja vera fínir. Í dag fór ég með þá í bæinn að leita að einhverju sem uppfyllir kröfurnar. Mikið af fötunum þeirra gegnum tíðina hafa verið keypt í H&M. Síðustu skiptin sem ég hef farið þangað hefur verið algjör hrillingur, troðfullt af fólki en ekki af nothæfum fötum. Nú hef ég lagt hart að mér í vinnunni í mörg ár og þrátt fyrir harðæri í bransanum um árabil hef ég nú samt sem áður aðeins rýmri fjárráð og var að hugsa um að kannski gæti ég bara leift mér að fara EKKI í H&M.
Nú er það ekki bara ég sem hef rýmri fjárráð, oft er hægt að lesa í blöðunum um fólk sem eyðir mörg þúsund dönskum krónum á mánuði í föt á ungabörn, og úrvalið af prinsessu kjólum á litlar stelpur er óendalegt, líka hægt að fá jakkaföt á pínulitla stráka og lakkskó og silkibindi og ég veit ekki hvað. En spariföt á 10 og 12 ára stráka er bara varla hægt að finna. Eiginlega frekar athyglisvert. Það er annars svo mikið framboð af öllu og neysla tengd börnum svo stór. Kannski eru 10 ára strákar ekki nógu mikið krútt lengur og ekki orðnir nógu miklir unglingar til að stjórna foreldrum sínum við fataval þannig að það svarir ekki kostnaði að nota búðarpláss í þá. Það eina sem við komum með úr bænum var ein skyrta á Egil, keypt í H&M.

jólanammigerðin

Powered by WordPress