Bera

fimmtudagur 2. febrúar, 2006

Mál vikunnar

Filed under: blabla — Bera @ 20:28

Tók mig nokkra daga að jafna mig eftir ameríku ferðina. Hjálpaði ekki að ég hafði gert eitt af þessum ferðaplönum sem líta mun betur út á pappír heldur en í alvörunni; aðfaranótt föstudags flaug ég frá vesturströndinni til austurstrandarinnar, fór á fund og flaug svo heim aðfaranótt laugardags.
Hér er ekki hægt að kveikja á útvarpi, sjónvarpi eða lesa blað án þess að sé verið að ræða teikningar af Múhameð. Nema náttl þegar er handbolti. Ansi flókið mál (sér í lagi það fyrra), og eiginlega væri sangjarnast að mótmælin og boycottin kæmu bara niður á jótum, þetta var nú þeirra blað sem fékk þessa undarlegu þörf fyrir að breyta tjáningarfrelsi í tjáningarskyldu. (kannski væri það annars ekkert svo sanngjarnt heldur). En alla vega er búið að ræða málið til þrota að mínu mati, svo er það handboltinn og mér finnst kvennahandbolti mun skemmtilegri en karlahandbolti, sem er allt of ruddalegur. En ég hef nú fylgst aðeins með núna, þar sem staðan er ansi spennandi fyrir bæði Danmörku og Ísland. Ég heyri í Gunna inní stofu fyrir framan sjónvarðið, hann segir ææ og ææææ, þannig að kannski er þetta ekkert spennandi lengur. Kannski ég kíki.
………….
Gunni er hættur að horfa, 21-20 fyrir Noreg.

laugardagur 21. janúar, 2006

Vetur

Filed under: blabla — Bera @ 0:01

Kominn hinn mesti vetur og ófærð. Við keyrðum öll sömul voða hægt í morgun. enda öll á sumardekkjum. Seinni partinn varð svo svaka-rosa hált, ísslag (sem sérfræðingur fjölskyldunnar í veðurlýsingum segir heita kalsarigning á íslensku, og var víst einhverntíma á Eyrabakka í æsku Gunna. Þá var líka alltaf úrkoma hjá veslings fólkinu í Grend (eða var það kannski í grennd). En alla vega er glerhált og margra millimetra klaki á öllum gluggum. Í dag er ég búin að vera samtals næstum klukkutíma að skafa klaka og snjó af bílnum og ….kannski hætti ég bara núna áður en ég fer að ýkja meira…. Kalifornía á sunnudaginn, muna það………
Kári fór til Jótlands í dag, lagði af stað alla vega. Gunni fór með honum á Hovedbanegården, þeir náðu síðustu lest áður en lestirnar hættu að ganga vegna óveðurs (þannig að Gunni þurfti að labba heim, en það er annað mál). Kári byrjaði svo á að bíða í 3 tíma á Hovedbanegården, orðið kalt á tásunum og á kinnunum. Þau komust loksins í lest, eru enn á leiðinni, en síðustu fréttir herma að lestin komist ekki alla leið til Hjørring vegna klaka á teinunum. Litla skinnið. Eða þannig. Reyndar er hann orðinn stór strákur síðan síðast. Miðvikudaginn 11.janúar kl 17:02 varð hann 15 ára. Á miðvikudagskvöldum lyftir hann lóðum og hleypur eftir fjöðrum í Brøndby, afmælisdagar engin undantekning. Til að geta dekrað soldið við hann tókum við okkur öll frí seinni partinn og borðuðum kökur. Á laugardaginn borðuðum við svo afmælismatinn hans, kínverskur matseðill, namminamm.

Gerði tilraun til að taka mynd af grýlukertunum á götulýsingunni sem við sjáum út úm gluggann okkar, tókst víst ekkert sérstakelega, en það er nú samt það sem er á myndinni.

Grýlukerti

mánudagur 9. janúar, 2006

badminton, kransakökur og þess háttar

Filed under: blabla — Bera @ 23:21

Í gær var ég með Ívari Í badmintonkeppni, og haldið ekki bara að hann hafi unnið, já bara í 1. sæti, algjört bust. Þar með hefur hann færst upp í flokk C, hann var rosa glaður.
Kári komst heim og höldnu úr æfingabúðunum, hafði ekki gubbað eftur þrekprófið, og var bara í þokkalegu ásigkomulagi.
Í dag datt hurðin af ísskápnum okkar og frystiskápnum líka. Sérfræðingar telja að hann hafi verið opnaður milli 50000 og 100000 sinnum. Það var hægt að festa þær á aftur, núna opnast þær bara í hina áttina. Þannig að nú heldur hann ábyggilega í 100 þúsund opnanir í viðbót, hugsanlega þarf að endurnýja gaffa-teipið, sem við notuðum til að líma hillurnar í aftur í millitíðinni.
Hér að neðan eru svo örfáar myndir úr jólafríinu. Sérstaklega vil ég vekja athygli á kransakökunni sem ég bakaði fyrir áramótin, þessari útgáfu mæli ég sérstaklega með, þ.e. flötum kransakökum, þær eru miklu-miklu betri.

nú er ár þangað til þeir verða aftur allir samtímis í sparifötum

Jólagjafirnar

Keilir

Kransakaka ársins

Frændsystkinin

Kári og pabbi

föstudagur 6. janúar, 2006

Aftur heima, og meiraðsegja kominn föstudagur

Filed under: blabla — Bera @ 20:26

Á mánudaginn komum við svo aftur til Köben, við heppin að alvara lífsins byrjaði ekki fyrr en á þriðjudegi. Er ekki dáltið harkalegt at byrja nýtt vinnu ár á mánudegi? Alla vega var einn kollegi minn, sem er búinn að vinna í fyrirtækinu í 21 ár, sem sagði upp strax á þriðjudaginn.

En mitt ár hefur nú bara byrjað mjög vel, líka í vinnunni. Reyndar hafa strákarnir verið verulega lengi að sofna á kvöldin og það er verulega erfitt að vekja þá á morgnana. Ég fer stundum til tímabelta sem liggja svona 8-9 tíma frá Danmörku og mér finnst það ekkert mál. En þessi klukkutíma tímamunur frá Íslandi gefur okkur þvílíkt jetlag að það tekur viku að jafna sig. Kannski náum við okkur um helgina. Greyið Kári fór í þrælabúðir til Jótlands í dag, verður fram á sunnudag. Ég hef aldrei upplifað þetta áður, en í gærkvöldi var hann bara hreinlega ekkert spenntur fyrir að fara af stað. En þegar Dansk Badminton Forbund kallar segir maður víst ekki að maður nenni ekki.

Það er líka fínt að vera byrjuð aftur í vinnunni. Allt komið á fullt, ég búin að kveikja í labbinu (ja, ok bara smá reykur) og eftir margra mánaða undirbúning lítur út fyrir að séu að koma einhverjar niðurstöður í nýju verkefnunum mínum. Ég fór svo snemma í jóafrí að ég náði ekki að fá jólagjöfuna frá OFS. Fékk hana í vikunni, fullt af súkkulaði, sem ábyggilega er voða lekkert að fá rétt fyrir jólin, en einhvern vegin ekki svo spennandi núna. Sem betur fer voru líka nokkrar vínflöskur, Gunni var að opna eina þeirra, pizzan er að verða tilbúin, þannig að ég kveð í bili.

fimmtudagur 22. desember, 2005

og svo er bara komið jólafrí

Filed under: blabla — Bera @ 21:46

á þriðjudagin vöknuðum við eins og venjulega; búa til nesti, skóli, vinna og allt þetta. Eftir hádegi var svo juleafslutningen í KBK, þangað mættu nátturulega allir strákarnir með jólasveinahúfur og svo spilar maður badminton með skóna reimaða saman og þess háttar og borðar smákökur og syngur jólalög hástöfum. Egill er að eigin sögn alveg “rosalega lélegur í badminton”. Hann er nú vanur að taka öllu með hinu stökustu ró, en var samt orðin þreyttur á að vera svona lélegur. Hann og Kári mættu þess vegna soldið snemma svo Kári gæti kennt honum nokkur fiff.
Ívar er ekki lélegur í badminton. Einu sinni á ári velur þjálfarinn tvo spilara sem hafa tekið miklum framförum, og Ívar var annar þeirra. Hann fékk voða fínan badmintonspaða, þjálfarinn sagði hitt og þetta fallegt um hann (ekki erfitt) og Ívar var rosa glaður.
Svo dró ég strákana heim, sóttum Gunna, við þrömmuðum út á lestastöð með óendalega margar töskur og vorum komin í Bræðratunguna 8 tímum síðar.
Í gærmorgun þegar við vöknuðum var kominn snjór í brekkuna, eins og við vorum búin að ákveða. Við erum búin að renna rosa margar bunur.

Kári var að MSNa, m.a. vi double makkerinn sinn. Sem sagt jafnaldra. MSN nafnið hans var “dejlig dag paa aktiemarkedet i dag”

fimmtudagur 8. desember, 2005

þetta er allt að koma

Filed under: blabla — Bera @ 22:42

Stökkbreyting hefur orðið hér á heimilinu. Við erum búin að setja upp gardínur í stofuna, bæði fyrir svalahurðina og gluggann. Ekki einu sinni keypt í IKEA. Með stöngum sem maður tekur í til að draga frá og fyrir. Og ekki nóg með það, á morgun koma gardínur fyrir borðstofuna líka. Þó við séum ekki búin að búa hér nema í tæp 9 ár vorum við samt búin að tala nokkrum sinnum um að setja kannski upp gardínur.

Ef það koma engin komment á þennan pistil veit ég að það er vegna þess að þið eruð öll mállaus yfir framtaksseminni.

fimmtudagur 1. desember, 2005

jólaskap

Filed under: blabla — Bera @ 21:55

Ég átti afmæli um daginn, voða gaman náttúrulega. Jólaundirbúningur er aldrei á dagskrá hjá okkur fyrr en eftir afmælið mitt og ég sé heldur aldrei jóla skreytingarnar úti fyrr en eftir afmælið. En núna er að verða voða flott í bænum, komin ljós á magsín og danglaterr. Ekkert jafnast á við það.
Á sunnudaginn var svo bara allt í einu komin aðventa. Við settum upp jólaskraut, gerðum kertaskreytingar og allt þetta. Settum ljós á svalirnar og inn í stofu og borðstofu eins og sannir Íslendingar. Það var svaka gaman hjá okkur og nú er þvílíkt jólalegt og huggó hérna í Rosenvængets Alle. Svo er 1. des í dag, jóladagatalið byrjað í sjónvarpinu, í ár er eitthvað um norrænu goðin.

föstudagur 25. nóvember, 2005

farið nú að drífa ykkur heim

Filed under: blabla — Bera @ 0:01

Egill og Ívar eru komnir í rúmið. Gunni er á aðalfundi í húsfélaginu ( svalirnar til umræðu) og Kári er í þjálfun. Ég er búin að lesa laufadrottningu í Kapalgátunni fyrir Ívar, kakan sem Egill á að taka með í skólann á morgun er komin í ofninn og mér er kalt á tánum. Það er hvasst og það blæs undir svalahurðirnar. Þurfum að gera eitthvað í því. Kári þjálfar 3 kvöld í viku (fyrir utan það sem hann þjálfar á daginn), og það hafa verið hinir ýmsu fundir og keppnir á dagskrá hjá okkur öll kvöld síðustu vikuna. En við gerum ráð fyrir að vera öll heima á sunnudaginn. Líka reyndar á laugardaginn, þá koma Susanne og co til okkar.
Um síðustu helgi var ég með Kára í keppni í Værløse. Hann byrjaði að spila kl 9 á laugardeginum og spilaði langt fram á kvöld, vorum ekki komin heim fyrr en að ganga miðnætti. Svo vorum við mætt klukkan 8:30 daginn eftir í undanúrslit. Honum gekk bara rosa vel fannst mér, en það er greinilegt að það er alltaf ferlega svekkjandi að tapa, líka þó maður sé kominn í úrslit. Svo brunuðum við í bæinn, hittum Gunna, Ívar og Egil, sem voru búinir að kaupa miða á nýju Harry Potter myndina, og henni mæli ég sko með!

miðvikudagur 16. nóvember, 2005

Filed under: blabla — Bera @ 18:03

Í dag eru kosningarnar og við Gunni búin að kjósa, bæði í borgarstjórn og í “region hovedstaden”. Það voru ca 300 nöfn á hvorum kjörseðli, og þeir voru næstum meters langir hvor. En sem betur fer vorum við búin að ákveða okkur og þurftum ekki að lesa þau öll. Þó ég kæmist að því inn í kjörklefanum að flokkar eins og “Mobilmast”, “Gratis Lykke” og “Lavere skatter og afgifter” væru í framboði breytti það engu.
(altsvo í gær, náði aldrei svo langt að birta pistilinn).

mánudagur 7. nóvember, 2005

Kosningaréttur

Filed under: blabla — Bera @ 21:12

Í dag kom með póstinum kosningaseðillinn, sönnun þess að ég hef kosningarétt í sveitastjórnarkosningunum í næstu viku. Ég hef nú eiginlega ekki full mannréttindi vegna þess að ég hef ekki kosningarétt í þingkosningum, sem eru nú eiginlega dáltið meira spennandi en þessar borgarstjórnarkosningar. En í þetta skipti er nú smá gaman að þessu. Hér í Kaupmannahöfn kemur nýr borgarstjóri (sem hefur bara gerst einu sinni áður síðan við fluttum hingað, og þá var sá nýji bara valinn af þeim gamla, já reyndar fyrir utan afleysingamanninn sem hefur verið síðustu mánuði). Prófkjör og ég veit ekki hvað, og svo hafa meira segja einhverjir aðrir flokkar en kratar haldið sínum kandidötum á lofti, eins og það sé nú eitthvað aktúelt.
Kratar hafa stjórnað Kaupmannahöfn í 100 ár, þ.a. það væri nú kannski tilvalið að leyfa öðrum að komast að. En það er nú ekki hægt að kalla þetta neina alvarlega tilraun hjá minnihlutanum, þ.a. ætli ég kjósi ekki bara Ritt (R!tt, ingen slinger i valsen). Þó ég myndi aldrei kjósa kratana í hinum kosningunum sem mig langar svo að taka þátt í, en má ekki. Er ekki líka alveg til fyrirmyndar að Ritt, 64 ára daman, langi svo að byrja nýjan karríer núna, meðan meðal dani væri búin að hlakka til að fara á eftirlaun í 10 ár á þessum aldri, og líklegast búin að gera alvöru úr því. (Ívar spurði okkur foreldrana í gær í hvaða eftirlaunasjóði við værum, auglsjóst hvar drengurinn er alinn upp).
Fyrir svona 10 árum gerði ég tvær tilraunir til að viðhalda íslenskum kosningarétti mínum, en þær misheppnuðust báðar (ef frá er talið eitt ár sem ég hafði kosningrétt, en það voru bara engar kosningar). Ég hef nú heldur ekki almennilega sett mig inn í málin eftir að alþýðubandalagið hætti að bjóða fram, þ.a. það væri nú kannski hálfgerð misnotkun á réttinum. (nei annars, ég hef heilmikið vit á þessu, verð nú að geta tekið þátt í umræðunum þegar við erum á Íslandi. Hjálpar að það virðist alltaf bara vera eitt mál í gangi í einu)

« Previous PageNext Page »

Powered by WordPress